10.1.2008 | 18:12
Hreyfing á hlutina
Framkvæmda- og ritstjórn Puma komu saman í dag og ræddi komandi tímabil. Framundan eru bjartir tímar hjá félaginu þar sem æfingar liðsins eru hafnar og útsendarar félagsins farnir til starfa.
Núverandi tímabil sitjandi stjórnar fer senn að líða, en eitt af hennar síðustu verkum var að koma á fót æfingum. Nú er ljóst að æfingar Puma fram á vor verða í Kórnum á þriðjudögum, en þegar birta fer og hlýna kemur Puma án efa til með að sameina krafta sína með heldri mönnum HK rétt eins og síðasta sumar og æfa á gervigrasinu í Fagralundi.
Böðvar Jónsson framkvæmdastóri Puma hefur setið í stólnum nú í rúm 3 ár. "Ég er tilbúinn að gefa mig í þetta í eitt ár í viðbót. Þetta er óeigingjarnt starf sem maður þarf að vinna, og ljóst er að hvorki fyrr né seinna kemur maður í minni stöðu til með að fá þetta greitt með einum eða öðrum hætti, nema þá kannski með dollu í lok tímabils. Þó er mikilvægt að menn standi saman og en mikilvægara að það sé sterkur og þéttur hópur sem stendur á bak við félagið." sagði Böðvar þegar ritstjórn náði tali af honum fyrir utan aðalskrifstofur Puma í Skaftahlíðinni nú seinnipartinn.
Hvað nýja stjórn varðar hefur stjórn félagsins ákveðið að framkvæma netkosningu. Sú kosning kemur til með að fara fram hér á heimasíðu Puma en verður tilkynnt síðar.
Nokkrir aðilar hafa verið nefndir á nafn sem stjórnarmenn Puma. Samkvæmt Böðvari kemur hann til með að gefa kost á sér aftur. Þá er Hreiðar Þór Jónsson sterklega orðaður við stjórnarsetu, enda starfaði hann sem hægri hönd Böðvars á síðasta tímabili. Auk þess hefur Hreiðar setið í framkvæmdastjórastól félagsins áður. Vésteinn Gauti Hauksson kemur sterkur inn og er reiknað með kauða í stjórn á komandi tímabili. Aðrir sem hafa verið nefndir á nafn eru: Arnar Halldórsdórsson, Már Jóhannsson, Brynjólfur Schram og að sjálfsögðu Ívar Guðmundsson sem setið hefur í stjórn liðsins undanfarin ár. Eitt er þó víst að Hermann Guðmundsson kemur til með að halda áfram formennsku í stjórn félagsins.
Ritstjórn hefur ákveðið að taka aftur upp þráðinn og leyfa leikmönnum sem og áhangendum liðsins færi á því að fylgjast með hvað er að gerast innan félagsins. Viðar Ingi Pétursson, sem hefur verið í forsvari fyrir ritstjórn sagði: "Já, það er mikilvægt að leyfa öllum sem tækifæri hafa á að fylgjast með. Vegna mikillar pressu hef ég ákveðið að spýta í lóa og drífa skrif í gang aftur." Að sögn Viðars verður þó hægt farið í skrif til að byrja með, en efni og fjöldi frétta kemur til með að aukast þegar líða fer á tímabilið.
- Nefndin
Athugasemdir
Þetta er magnað, frábært tímabil framundan!
Arnar (IP-tala skráð) 13.1.2008 kl. 01:05
Stórkostlegt að sjá líf á þessari síðu hér. Ekki spurning að dollan verður tekin í ár er ég alveg ákv. í að skora meira á komandi tímabili en ég gerði á því seinasta.
Þórhallur (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.