11.9.2007 | 00:06
Stjörnuhrap í Fagralundi
Leikið var í Fagralundi í gærkvöld þegar heldri manna lið HK fékk lið Stjörnunnar úr Garðabæ í heimsókn. Ekki var útlit fyrir góða mætingu en þegar flautað var til leiks voru aðeins tíu menn í hvoru liði.
Nokkrar Pumur voru mættar, tilbúnar að gefa sig í það verðuga verkefni sem var framundan. Stjarnan var búin að leika vel fram að þessum leik og voru HK-ingar allt að því pínu smeykir fyrir verkefni dagsins. Það kom þó á daginn að lið HK átti fína spretti og fjöldann allan af færum. Það voru hins vegar Garðbæingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins, en það var hinn magnaði What's His Name, sem skoraði með föstum skalla, sem Böðvar Jónsson varði inn, eftir fallega fyrirgjöf frá Hvað Sem Hann Nú Heitir, 0-1.
Í seinni hálfleik tóku HK-ingar sig til í andlitinu og settu kraft í leikinn. Úr því varð að Tryggvi Valsson skoraði eftir stórglæsilega sendingu frá Ívari Jónssyni, sem gaf boltann frá miðju vallarins inn fyrir vörn Stjörnumanna þar sem Tryggvi tók laglega við boltanum og setti hann í fær hornið, óverjandi fyrir markvörð Garðbæinga, 1-1.
Bæði lið sóttu það sem eftir var leiks og áttu ágæt færi. Það voru hins vegar bæði markmenn liðana sem komu í veg fyrir mörk sem og sóknartilburðir leikmanna, sem voru oft á tíma ekki hátt skrifaðir í leiknum. Vigfús Þórisson átti stórleik í vörn HK og bjargaði oft liðinu frá því að fá sóknarmenn Stjörnunnar eina á móti markverði.
HK komst svo yfir um miðjan seinni hálfleik. Þar var aftur á ferðinni Tryggi sem skoraði fallegt mark eftir góða samvinnu leikmanna HK, 2-1. Vésteinn Gauti Hauksson, markahæsti leikmaður Puma í sumar, skoraði svo þriðja mark HK, eftir að liðið hafði átt nokkur kjörin tækifæri til að skora. Fallegt mark þar sem Viðar Ingi Pétursson átti framúrstefnulega sendingu af hægri væng í fang Vésteins sem gulltryggði HK-ingum sigurinn, 3-1.
Fínn leikur og góð æfing. Vinnusigur HK-inga þar sem lið Stjörnunnar var sterkt, en þess má geta að þeir léku 10 allan leikinn.
Eftirtaldir leikmenn Puma léku með HK: Böðvar, Vigfús, Viðar, Vésteinn.
- Ritstjórn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.