14.8.2007 | 11:59
Tvö mörk Árna dugðu ekki til
Það var blíðskaparveður í Fagralundi í gærkvöldi þegar Puma fengu Hjörleif í heimsókn í 7. umferð A-riðils. Puma mættu með ríflega 17 manna hóp til leiks gegn sterku liði Hjörleifs. Búast mátti við hörkuleik þar sem bæði lið voru staðráðin að blanda sér alvarlega í toppbaráttuna. Það voru skörð fyrir skildi að þrír sterkir varnarmenn voru fjarverandi og þ.á.m. hafsentaparið úr síðasta leik, Vigfús og Evert. Leikurinn hófst af miklum krafti og ljóst var að tempó-ið yrði hátt í þessum leik. Eitthvað voru Puma-liðar værukærir fyrstu 10 mínúturnar og gengu Hjörleifs-menn ákveðnir á lagið og sóttu í við meira. Leikurinn jafnaðist eftir það og mikil barátta og návígi einkenndu leikinn nánast frá 1. mínútu. Báðum liðum gekk frekar illa að halda bolta innan liðs, en færin létu samt ekki á sér standa, sem komu aðallega uppúr skyndiupphlaupum og löngum sendingum fram.
Það mátti glögglega sjá að vörnin hafði ekki sama yfirbragð og oft áður, en stóðu engu að síður af sér mörg skyndiáhlaup andstæðinganna. Puma gerðu sig seka um að fara í það að koma boltanum fram sem fyrst með löngum sendingum í stað þess að fara í gegnum miðjuna. En með okkar sterku framherja Ívar og Vedda skapar það oft mikinn usla í vörn mótherjanna. Árni, Veddi og Arnaldur fengu fín færi í fyrri hálfleik til að koma Puma yfir en inn vildi tuðran ekki. Svo gerðist hið óumflýjanlega þegar færin eru ekki nýtt gegn betri liðum, okkur var refsað með marki. Eiríkur G. Helgason kom gestunum yfir á 25. mínútu. Þetta kom Puma í opna skjöldu og aðeins 4 mínútum síðar þurfti Þorleifur að hirða boltann aftur úr markinu. Valgeir Einarsson var þar að verki og virtust Puma menn hálf slegnir eftir þennan 5 mínútna kafla. Eftir svona leikleysu er eina svarið að girða í brók og minnka muninn. Það gerðu heimamenn svo sannarlega og skoruðu fallegt mark á 33. mínútu eftir gott samspil og stungusendingu. Árni Þór Eyþórsson gerði engin mistök einn á móti annars ágætum markverði Hjörleifs og skilaði boltanum örugglega framhjá honum. Staðan 1-2 fyrir gestunum í hálfleik.
Mikil barátta og barningur var í seinni hálfleik þar sem liðin skiptust á að ógna með reglulegu millibili. Vésteinn Gauti Hauksson fékk kjörið tækifæri til að jafna fyrir heimamenn en fast skot hans af stuttu færi glumdi í þverslánni. Puma fengu fleiri færi í síðari hálfleik en eins og svo oft áður voru þeir lánlausir fyrir framan mark andstæðinganna. Þá gerðist það sama og í þeim fyrri, að liðinu var refsað fyrir að nýta ekki færin. Baldvin Ólafsson setti Hjörleif í ansi vænlega stöðu með marki gegn gangi leiksins á 60. mínútu. Heimamenn spýttu í lófanna og reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn. Liðið þurfti að sækja á fleiri mönnum, sem á móti skapaði iðulega hættu á skyndisóknum Hjörleifs. Þegar 10 mínútur lifðu leiks báru sóknartilburðir Puma árangur þegar Árni Þór skoraði sitt annað mark af harðfylgi. Leikurinn var galopinn síðustu mínútunar og gat mark fallið báðu megin. Gestirnir héldu þó út og uppskáru öll stigin. Þriðja tap Puma staðreynd.
Þrátt fyrir þessar ófarir eru Puma í 5. sæti og aðeins þremur stigum frá sæti í úrslitakeppni þegar þrír leikir eru eftir. Liðið er hvergi nærri úr leik í baráttunni !!
Byrjunarlið:
Þorleifur
Gunnar - Hilmar - Alexander - Arnar
Arnaldur - Benni - Árni - Már Þ.
Ívar - Vésteinn
Bekkur: Viðar, Annel, Magnús, Már J., Jón, Böðvar, Guðmundur
Maður leiksins: Árni Þór Eyþórsson. 2 góð mörk og hársbreidd frá því að setja þrennuna. (sem var í sjálfu sér mjög illa unnð)
- Ritstjórn
Athugasemdir
Hvað sem þessu líður drengir, þá munum við berjast fram á síðustu mínútu í síðasta leik. Markmiðið hlýtur að vera að gera sitt allra besta og í það minnsta bæta árangur frá síðasta tímabili. Með hagstæðum úrslitum eigum við ennþá möguleika, og á meðan svo er HÖLDUM VIÐ ÓTRAUÐIR ÁFRAM ! Auk þess erum við ennþá á lífi í bikarnum, sem er mikill bónus þegar staðan er svona.
PRIDE & COMMITMENT !! koooooooma svooooooo
VIP (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 13:09
Er ég þá þessi þriðji varnarmaður sem er frá
Emil (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.